Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Kjánlegur útvarpsmaður

Ég hlustaði áðan á Kristínu Sigurðardóttur útvarpsmann á RÚV taka viðtal við nýjan forstjóra Landspítala - Huldu Gunnlaugsdóttur.

Áherslur fréttamannsins voru sérstakar. Hér kemur öflugur stjórnandi að erfiðu verkefni og það sem frettamanninum dettur helst í hug að ræða er annars vegar grunnmenntun forstjórans og hins vegar einkavæðing. Hvorugt er áhugavert á þessum tímapunkti.

Auk þess að vera ber að öðrum eins hallærisgangi og ætla að grunnmenntun Huldu sé henni á einhvern hátt fjötur um fót vissi fréttamaðurinn augljóslega lítið um spítalann. Hún spurði t.d. hvort ekki væri sérstakt að hjúkrunarfræðingur tæki við forstjórastarfinu þegar læknar hefðu gengt því að undanförnu. Fyrir utan kjánahrollinn sem svona spurning hlýtur að valda manni, hefði Kristín átt að vita að síðasti forstjóri Landspítala (í 9 ár) var Magnús Pétursson hagfræðingur. Magnús stýrði spítalanum allt frá sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur (sem Jóhannes Pálmason lögfræðingur var forstjóri fyrir) og Landspítala (sem Vigdís Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur stýrði). Þetta má bara googla.

Einkavæðing er vafalaust nýjum forstjóra fjarri í huga þó hugsanlega komi það einhverntíma upp á borð. Starfsmenn spítalans og aðrir sem eitthvað hafa af stofnuninni að segja hefðu vaflaust haft meiri áhuga á hvort nýr forstjóri stefndi á einhverjar meiriháttar breytingar eða hverjar áherslur hennar verða.

 


Nýr yfirmaður

Það er óhætt að segja margra mánaða óvissu og spennu hafi verið aflétt með tilkynningu ráðherra á vali nýs forstjóra hjá okkur Landspítala-fólki. Hér hefur mikið verið skrafað og skeggrætt um embættið síðan Magnús Pétursson var látinn taka hatt sinn og staf.

Satt að segja var maður nú orðin vel óþreyjufullur eftir að heyra niðurstöðu ráðherra, enda átti forstjórinn að hefja störf 1. september. Nú var val Huldu sumsé kynnt starfsmönnum hér í Fossvoginum kl. 12 og það var ánægjulegt að starfsmenn voru fyrstir til að fá fréttirnar staðfestar. Huldu var mjög vel tekið, vægast sagt, langt og mikið lófatak sem vonandi er upptaktur að góðu samstarfi forstjóra, starfsfólks og ráðherra.

Það veitir ekki af.


mbl.is Nýr forstjóri LSH til starfa 10. október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort viltu hund eða hund ...

Fyrsti skóladagur Filippíu dóttur minnar rann loksins loksins loksins upp í dag. Aldrei þessu vant var litla svefnpurkan fljót á fætur og mætt í hafragrautinn áður en maður náði að snara honum á borðið. Við vorum aðeins búnar að ræða mikilvægi skólagöngunnar og lærdóms um daginn. Ég spurði hana hvort hún teldi mikilvægara að læra að reikna eða lesa. Hún horfði bara á mig með nettum hneykslunarsvip og sagði; mamma, þetta er eins og að spyrja mig hvort ég vilji hund eða hund!

Við gengum í skólann. Ég sagði að það væri nú sniðugt að æfa sig í umferðarreglunum. Filippía taldi sig ekki þurfa þess. Hún væri búin að læra þær og búin að líma þær í heilann. "Ha" sagði ég. "Já", svaraði sú stutta "ef ég læri eitthvað þá bara límist það í heilann og dettur ekkert af".

Ég leyfi mér, svona í upphafi skólagöngunnar, að vonast til að þetta lím endist.


London - Baglioni

Tilgangur: skemmtiferð

Ferðafélagar: maki

Árstíð: vor

Hotel Baglioni London er eitt fárra Baglioni hótela utan Ítalíu, þar sem keðjan rekur nokkur hótel. Þetta hótel er ágætlega staðsett, við Hyde Park og rétt hjá Royal Albert Hall.

Hér er um að ræða boutique-hótel, með svolítið ensku ívafi, t.d. "butler-service" sem við nýttum okkur nú raunar ekki. Þetta er ekki stórt hótel en notalegt.

Sameiginleg rými: Anddyrið er lítið en mikið lagt í hönnun og þjónustan í móttökunni er afar fagleg. Við hliðina eða í raun í rými inn af móttökunni er ansi flottur bar og afbragðs veitingastaður. Þar er morgunmaturinn borinn fram. Önnur rými eru í raun bara gangar sem eru miklir ranghalar eins og búast má við í húsi af þessari tegund.

Herbergi: við gistum í junior-suite sem er rúmgóð og falleg. Herbergið snéri að Hyde-Park og þannig má kannski segja að útsýni hafi verið yfir garðinn en það var nú reyndar ekki, þar sem tréin eru svo svakalega há og byrgðu sýn, jafnvel þó við værum á 5 hæð. Stórt og flott rúm, sófasett, arinn og auðvitað sjónvarp - allt af góðum gæðum og sæmandi fimm stjörnu hóteli. Svart parket á gólfum og bólstraðir veggir. Sérstaklega var baðherbergið flott, þó það væri ekki stórt - t.d. vaskar úr kopar. Aðall þessa hótels er´þó sennilega kvöldþjónustan; vatn á náttborði, kertaljós, tónlist og falleg næturlýsing.

Morgunmaturinn er alveg ágætur en fremur dýr. Veitingastaðurinn er afbragð og óhætt að mæla með honum.

Annað sniðugt sem þetta hótel býður upp á er afnot af ítölskum (nema hvað) sportbíl, Mazerati. Við nýttum okkur það ekki, en gæti verið gaman.

Niðurstaða; flott hótel, lítið og notalegt. Heldur dýrt. M.a.s. fyrir fall krónunar!


Höfundur

Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna er alvöru húsmóðir í vesturbænum og því til staðfestingar kaupir hún reglulega Martha Stewart Living

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband