Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Þessu slotar bráðum

 

Það er svolítið magnað að horfa á Styrmi og co hamast í Degi eins og þeir hafa gert að undanförnu. Það mátti til dæmis skilja á blaðinu að Dagur hefði stjórnað mótmælendum á pöllum ráðhússins, þegar honum varð nóg um lætin og gerði hvað hann gat til að hafa vinnufrið. Þetta kallar maður að hafa endaskipti á hlutunum. Það er auðvitað þeim sem þekkja til Dags - og vita því að þar fer maður sem má ekki vamm sitt vita - undrunarefni að blaðið skuli yfirleitt reyna þetta.

Ekki svo að skilja að það breyti lengur nokkru hvað Morgunblaðið prentar, blaðið er að missa allan pondus.

Það er samt óþolandi að menn eins og Dagur þurfi að sitja undir þessu. Ýkjur, aðdróttanir og reyndar bara hreinar og klárar rætnar lygar blaðsins eru því ekki til sóma. Vísa ég þá til þess sem sagt hefur verið í leiðara blaðsins um að forystu menn Samfylkingarinnar hafi nýtt sér meint veikindi Ólafs í þessari orrahríð. Því fer fjarri. Enginn hefur gert það með jafn óforskömmuðum hætti og einmitt Morgunblaðið sjálft. Ég vona bara að þessi stjórnarskipti í ráðhúsinu hafi ekki kostað Ólaf vinslit við fulltrúa núverandi minnihluta, því með þetta Morgunblað að vini þarf enginn óvini.

Ég hef lengi haft það fyrir reglu að lesa ekki Morgunblaðið 6 mánuðum fyrir kosningar. Blaðið verður eitthvað svo öfugsnúið og undarlegt í aðdraganda kosninga að það er ekki lesandi nema maður sé innvígður og innmúraður. Síðustu misseri sýnist mér þó þessi einkenni hafa ágerst og eiginlega orðin krónísk. Maður fær nettan kjánahroll að lesa leiðarann, Staksteina og greinar einstakra blaðamanna. Stundum er maður beinlínis agndofa yfir því sem manni er boðið upp á og á það sérstaklega við um undanfarna daga.

Blaðið á sér þó þá viðreisnarvon að skipt verði fljótlega um ritstjóra. Þess vegna hef ég ekki sagt upp áskriftinni.

Fyrir umræðuna í landinu skiptir þó mestu máli að horfa framhjá fýlubombunum úr Hádegismóum og beina áherslunum að aðalatriðinu sem er þetta óforskammaða valdarán Vilhjálms og félaga.

--

Má til með að skella inn tengil á þessa snilldargreiningu á ástandinu í Hádegismóum;

http://finnurvilhjalmsson.blogspot.com/2008/01/styrmir-br-til-strmann.html


mbl.is Segir Morgunblaðið hafa gert Ólaf að vígvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já fínt, já bless

Fórnarlambshlutverkið fer Birni Inga afar illa.  Svona fyrir utanaðkomandi er málið tiltölulega einfalt. Mamma hans Forrest Gump sagði að lífið væri eins og konfektkassi; maður vissi aldrei hvað maður fengi. Björn Ingi reif hins vegar upp kassann, hljóp með hann út í horn og passaði að enginn kæmist í hann meðan hann tróð í sig bestu bitunum. Nú liggja bara sælgætisbréfin eins og hráviði útum allt og Bingi ætlar ekki einu sinni að þrífa eftir sig.

Björn Ingi hefur aldrei verið í stjórnarandstöðu. Hann datt inn í pólitík fyrir 6 árum þegar Framsókn var í ríkisstjórn, þröngvaði sér í borgarstjórnarmeirihluta og hrökklast nú þaðan sama dag og hann hefði hafið sinn fyrsta dag í stjórnarandstöðu. Svakalegt úthald það. 

Það sem er svo mest spennandi er að sjá hvar maðurinn dúkkar upp næst. Hann er eins og kötturinn, sem lendir alltaf á fótunum.


mbl.is Björn Ingi hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar VEIKUR meirihluti

Fráfarandi meirihluti er veikur en þessi er mun veikari. Merkilegt að menn sjái það ekki. Var að horfa á Kastljósið og þar fullyrti m.a.s. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir það. Vissulega eru báðir meirilhlutarnir veikir, en í þeim síðari erum við að tala um afar veika stjórnendur - annars vegar Ólaf sem ekkert hefur á bak við sína stöðu og hins vegar Vilhjálm sem enn er veiklaður eftir aðförina í haust. Dagur er klárlega öflugri stjórnandi en þeir báðir til samans og ríflega það, auk þess sem hann er með öflugan flokk á bak við sig.

Eins skil ég ekki hvaða hluta orðsins "NEI" skilja ekki fréttamenn á RÚV - Margrét var afar skýr með að hún styður ekki þennan meirihluta en allt Kastljósið töluðu menn um að afstaða hennar væri óljós. Nei þýðir Nei. Halló!


mbl.is Ólafur og Vilhjálmur stýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjandakornið ...

Mér er verulega brugðið við svona fréttir. Það er auðvitað algjört "understatement" að segja að þetta sé óviðunandi. Ýmsar stéttir mæta hverskonar hættum og vanda í sínum störfum en sennilega eru lögreglumenn útsettastir fyrir óþverra af þessu tagi.

Mér sýnist að undanförnu hafi verið nokkuð margar fréttir sem lýsa ofbeldi gagnvart lögreglu og reyndar almennum borgurum líka. Hvað veldur? Við höfum alltaf átt okkar vitleysinga sem vað uppi blindaðir af ranghugmyndum um eigið ágæti en svei mér þá ef þetta hefur ekki aukist. Er ástæðan sú að þetta eru fleiri einstaklingar? Eða betri fréttaflutningur? Eða getur verið að lögreglan ráði síður við þessa vitleysinga nú? Kannski segir það til sín að fjöldi óreyndra lögreglumanna er of mikill og þeir síður í stakk búnir til að tala menn niður úr æsingsástandi og lenda frekar í átökum. Það á nú sennilega ekki við í þessu tilviki, enda af fréttum að dæma að hér hafi verið óeinkennisklæddir menn á ferð að glíma við fólk sem sjálfsagt var í annarlegu ástandi.

En kannski menn ættu ekki eingöngu að horfa í fjölda/fæð lögreglumanna heldur hæfni þeirra og reynslu miklu frekar. Það gildir sjálfsagt hér eins og víðar, það er ekki magnið heldur gæðin.


mbl.is Árás á lögreglu óviðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

hmmm ...

... þar fór nú mesti glansinn af niurfellingu komugjalda vegna barna. Það er svona sem á mæta þeirri niðurfellingu.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að einhver minniháttar greiðsla sé eðlileg fyrir þjónustu af þessu tagi en fylgjandi því að börn séu undanþegin öllum gjöldum vegna heilbrigðisþjónustu. Mér brá samt svolítið í gær þegar ég þurfti að leita á læknavakt heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi og mátti borga fyrir það 2250 kr. en hafði þurft að fara þar svipaðra erindagjörða í síðustu viku (heilsufarið eitthvað dapurt þessa dagana) og borgaði þá 1750 kr. Þetta er um 30% hækkun, enda var þessum ágætu móttökudömum á heilsugæslunni nokkuð brugðið. Ég vil samt bæta því við að ég fékk afbragðs þjónustu.

Ég ætla nú ekki að lýsa mig andvíga þessum hækkunum en ég held að ekki ætti að seilast lengra í þessa átt.


mbl.is Hækkunin daprar fréttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna er alvöru húsmóðir í vesturbænum og því til staðfestingar kaupir hún reglulega Martha Stewart Living

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband