Leita í fréttum mbl.is

Í kirkjugarðinum

Ég átti erindi í kirkjugarðinn í Fossvogi. Þetta er friðsæll reitur og gott að syrgja þar.

Í sumar hafa greinilega verið áberandi natnir umsjónarmenn. Öll leiði voru óvenju vel hirt af hálfu rekstraraðilanna, leiðissteinar hreinsaðir og beð löguð. Þetta ber að þakka.

Það var reyndar svolitið skrítið að þarna í friðsældinni voru á vappi nokkur ungmenni í því sem mér virtist vera ratleikur eða eitthvað slíkt. Voru að leita að leiðum frá einhverjum ákveðnum tíma. Þetta var greinilega gaman en köll og hróp krakkanna fóru ekki vel með líkfylgd og greftrun sem þarna var á sama tíma.

Allt hefur sinn tíma. Það er tími til að gleðjast en líka til að syrgja.


Fljúgðu

20. ágúst og hugurinn reikar. Fljúgðu - ég sé þig síðar.

Aldeilis ljómandi

Við erum auðvitað stödd í Hólminum.  Ég blogga því frá Fiskeskuretange í dag. Hér er mikil hátíðarstemming - margmenni en allt í góðum gír.

Dejligt!


mbl.is Danskir dagar í Stykkishólmi í góðum gír
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næturbrölt á mér

Ég heyrði í þyrlunni taka af stað í nótt. Hljóðbært hér í vesturbænum. Hafandi unnið á gjörgæslu þá fæ ég alltaf smá sting í magan þegar ég heyri í þyrlu. Sem betur fer mun konan ekki mikið slösuð skv. fréttum útvarps og enn er maður minntur mikilvægi góðrar þjónustu landhelgisgæslunnar og heilbrigðisstofnanna.

Annars hefur þessi stingur minnkað aðeins undanfarið eftir að maður verður meira var við upptekna bisnessmenn eða auðmenn í lystitúr á þyrlunni sinni. Það er betra að vita af þeim í loftinu en stórslösuðu fólki.

Í sumar var ég í kyrðinni í Flatey. Veðrið var dásamlegt. Einn dýrðarinnar eftirmiðdag byrjar eitthver leiðinda hávaði og það tók mig smá tíma að átta mig á að þarna væri þyrla á ferð. Var ekki TF-Orri, þ.e. Ólafur í Samskipum, mættur til að fá sér eitthvað í gogginn á Hótel Flatey. Svo flaug hann víst að búðum til að fá sér kaffi. Svona getur nú fólk verið sérviturt þegar kemur að kaffi.

Ég hugsaði nú aðeins um þetta. Af hverju fannst mér þetta ekki "viðeigandi". Er maður kannski bara öfundsjúkur plebbi?

Held ekki. Þetta minnir mig smá á hann Willy í Húsinu á sléttunni. Einu sinni var Laura (þið munið, Laura Ingalls!) að leika sér heima hjá honum og skoðaði flotta dóttið hans og sagði "nei sko, Örkin hans Nóa!". Þá varð Willy fúll og sagði "nei þetta er örkin mín!!" Smá svona Willy-fílingur í þessu TF-Orra dæmi.

Mér dettur í hug að Ólafur gæti bara skírt þyrluna upp á nýtt. Gæti heitið "Liggalá" eða "na-na-na-bu-bu"

 

ps. Fékk viðeigandi athugasemd frá lesanda hér að neðan. Ég bið hlutaðeigendur afsökunar ef þeim hefur mislíkað við mig það var svo sannarlega ekki meiningin.  Eiginlega var tilgangurinn að benda á breytingarnar. En takk Guðni.


mbl.is Útkall hjá Landhelgisgæslunni í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðurinn úti

Þá er sælutíð í Flatey lokið þetta árið. Að vanda vorum við mæðgur lengi í eyjunni og gerðum ekkert nema njóta lífsins. Auður vinkona mín kom við hjá okkur með alla sína drengi og þau spurðu hvað við gerðum eiginlega í Flatey. Ég gat nú ekki alveg svarað því. Byggðum reyndar glæsilegan kofa úr vörubrettum, fundum villt kúmen, fylgdumst með fuglum og tókum á móti gestum. Reglulega skilaði Baldur svo í land Jóni, okkur til mikillar ánægju og honum til vel-til-unninnar afslöppunar.

Hótel Flatey er alveg að gera sig. Umhverfið er auðvitað frábært, gæði enduruppbyggingar húsanna í sérflokki og þjónustan (með ákveðnum undantekningum reyndar) í hinum afslappaða ljúfa Flateyjar-anda. Svo er það nú maturinn ... alveg frábær. Einstakur. Eitt kvöldið voru gestakokkar - þeir Kalli kafari í Vertshúsi og Rúnar Marvinsson. Það var þaraveisla. Og þá erum við sko að tala um veislu! Þarna prófuðum við matreiðslu úr allskyns þara ... t.d. þarasúpu og þarapönnukökur með þarasultu. Þarinn var auðvitað allur úr Breiðafirðinum og það sem ekki náðist á fjöru kafaði Kalli eftir. Þetta var algjörlega einstakt.

En svo kom nú verslunarmannahelgin. Í land kom Baltasar Kormákur við sjötuguasta mann, fjórhjól í fleirtölu og annað eftir því. Það munu standa yfir tökur á einhverri mynd í mánuð eða svo. Tökur fara fram innan um brjálaðar kríur sem eru ekki fíla nærveru tökuliðsins, sem reyndar má þekkja af bláum hjálmum sem verja á fólkið fyrir ágangi kríunnar. Þetta er ábúendum og öðrum Flateyingum til mikillar skemmtunar. Krían er hins vegar í fullum rétti, enda með ófleyga unga og agresiv eftir því. En úr því að svo var komið var eins gott að kom sér hversdagsgargið hér í borginni.


Þrifaferð í kaupstað

Nú um stundir dvelst kvenleggur fjölskyldunnar í Flatey. Þvílík dýrðarinnar sæla og hamingja! Veðrið hefur leikið við okkur en þó hefur okkur af harðfylgi tekist að mála glæsilegan kofa dætranna, setja þakefni og síðast í gær var haldið á brennuna og girðingarefni frelsað frá væntum logum.

Það eru auðvitað kostir og gallar sem slíkri blíðu fylgja, nú er svo komið að afar vatnslítið er í eynni og sent var út herkvaðning að allir hafi nú með sér vatn sem dveljast ætla í eynni. Jafnvel þó að við í Byggðarenda búum svo vel að vera með eigin brunn og vatnstaðan þokkaleg hjá okkur er þó þannig komið að maður er ekki að fara í sturtu eða setja í vél. Svo það var ákveðið að taka Baldur í land í gær og þrífa mannskapinn.

Dætrunum þurfti að múta af lagni til að hafa þær í ferjuna. Samningalotunni lauk með fullnaðarsigri þeirra, sundferð í Stykkishólm, heimsækja frænkurnar góðu á Skólastíg og tveir auka dagar í Flatey.

Þær eru harðar.

 

 


Til fyrirmyndar

Gott að heyra þetta frá bjargveiðimönnum í Eyjum. Ætisskortur virðist vera vandi víðar og vona ég að veiðimenn og þó sérstaklega blóðsportsveiðimenn  sem sækja í Breiðafjarðareyjar taki sér þetta til fyrirmyndar.
mbl.is Bjargveiðimenn í Eyjum ætla að draga mjög úr lundaveiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æi nei!

Mikið skelfilega eiga sumir í miklum erfiðleikum með sjálfa sig! Ég vona svo sannarlega að hægt sé að leiðbeina gerendunum í þessu máli, þeir hljóti viðeigandi refsingu og átti sig gjörðum sínum.

Mikið er ég líka fegin að það var ekki ég sem aldi þessa drengi upp!


mbl.is Meint hundsdráp kært til lögreglunnar á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manneklan er mýta!

Ég held ég sé búin að leysa mannekluvandann á Landpítala-Háskólasjúkrahúsi. Eða þannig. Allavega er ég með nýjan vinkil á málið.

Þessi tími árs er reyndar þannig að umræðan um manneklu á heilbrigðisstofnunum er hávær. Eðlilega. Miðað við hvað heyrst hefur og reyndar líka það sem rannsakað hefur verið snýst vandinn ekki endilega um laun heilbrigðisstétta. Vinnuálagið er númer eitt, vinnuaðstæður númer tvö (þetta tvennt helst reyndar fast í hendur í hjúkrun) og launin koma svo þar á eftir eða janfvel síðar á listanum.

Lausnin fyrir LSH er því ekki að hækka laun hjúkrunarfræðinga heldur fjölga þeim. Reyndar væri sterkur leikur að hækka launin líka, svona til að halda þeim sem enn eru í starfi og lokka til baka nýja.

Mín tillaga er því þessi: fjölgum stöðugildum hjúkrunarfræðinga um 100 og hækkum laun þeirra allra um 10%.

Ég sé fyrir mér að einhver hafi fengið nett flog við þetta og spurji "hvar á að fást peningur í þetta"!!!!! Sá hinn sami getur róað sig, ég held þetta kosti nú ekki svo mikið. 100 milljónir eða svo.

"getur ekki verið" æpir hann.

 Jú víst.

Samkvæmt Félagi Íslenskra Hjúkrunarfræðinga eru meðallaun hjúkrunarfræðinga ríflega 450 þúsund á mánuði. Þá erum við að tala um heildarlaun allra, vaktaálag, yfirvinnu og svo framvegis. Þar sem hlutfall yfirmanna er minna á LSH drögum við 10% frá. Þá er launakostnaður LSH (með launatengdum gjöldum) ríflega 6,5 milljarðar. Bætum 100 stöðugildum við og það er kostnaður upp á ríflega 500 milljarða á ári. Hækkum síðan laun allra um 10% og þá er heildarlaunakostnaður LSH vegna hjúkrunarfræðinga rétt ríflega 7,6 milljarðar.

"semsé, þetta kostar ekki hundrað milljónir heldur þúsund milljónir og gott betur!"

Neinei.

Mannekluvandinn á LSH hefur verið leystur með yfirvinnu starfsmanna. Það kostar miiikið. Segjum að hver hjúkrunarfræðingur á LSH taki 2 aukavaktir í mánuði. Hvað kostar það? ... jú ...

1.000.000.000 kr!

Niðurstaðan er því sú að þessi aðgerð myndi kosta hundrað milljón kall. Jebbs.

"ókei, hvar ætlar þú að finna þessa hjúkrunarfræðinga"

Ja, það eru um 600 hjúkrunarfræðingar í landinu sem ekki starfa við hjúkrun. Margir þeirra eru þar að auki fyrrum starfsmenn LSH sem flúið hafa álag og aðstæður (og laun).

Nú fjölgum við því stöðugildunum, álagið minnkar, aðstæður lagast og launin hækka.

Fyrir litlar 100 milljónir.

Ég hugsa að ég hringi í Árna Matt og Önnu Stef á morgun.


Ungabrenna í Flatey!

Þeir sem Flatey á Breiðafirði þekkja og sækja heim vita að þar stendur tíminn kyrr, róin og dýrðin er alger. Það varð svolítil tímabundin breyting þar á um síðustu helgi. Ég er sannfærð um að meiri hasar hefur ekki verið þar síðan rottan kom í eynna snemma á síðustu öld.

Þannig háttar til að talsverðar framkvæmdir eru víða um eynna þar sem fólk dyttir og endurnýjar hús sín. Því sem brennanlegt er er svo safnað á haug. Nú er kominn nokkuð myndarleg brenna og um síðustu helgi hugðist fólk á ættarmóti, sem ættir sínar rekur í Ásgarð, kveikja í brennunni í tilefni Jónsmessunnar. Eitthvað hafði málið ekki verið hugsað til enda, því nú stendur varpið hvað hæst og margir fuglar komnir með unga. Fuglarnir eru afar hrifnir af svona brennum - þó ekki til íkveikju heldur til hreiðurgerðar. Þrátt fyrir þetta hugðust menn halda brennu þarna á björtu Jónsmessukvöldi.

Nú voru góð ráð dýr. Annað hvort var að horfa upp á ungabrennuna eða grípa í taumana. Valkyrjur í Læknishúsi höfðu forgöngu um alvöru mótmæli. Þrammað var niður að brennunni og þar sem ekki var tauti við brennustjórann komandi var ekki annað að gera en að hlamma sér á brennuna! Brennustjórinn lét nú ekki svoleiðis smámuni aftra undirbúningnum og hóf að skvetta bensíni á brennuna. Þá fór ættarmótsfólk að streyma að og auðvitað urðu vonbrigðin nokkur við þessa fyrirstöðu. Flestir tóku þó sönsum strax og vildu ekki kveikja í ungunum, sérstaklega þegar þeir höfðu virt fyrir sér maríuerluhreiður með sjö nýklöktum ungum.  Brennunni var því aflýst og ættarmótsgestir tóku bara lagið í góðu stuði, þrátt fyrir brennuleysi.

Þetta var reyndar allt hið skrítnasta mál. Verst þótti mér að heyra áeggjan eins föðurs sem þarna var með ungum syni sínum - svona 5-6 ára gutta - sem vildi setja nokkra spýtuklumpa á brennuna. Faðirinn stakk upp á því að drengurinn henti klumpunum í mótmælendur! Annað sem mig undraði var að fullorðið fólk hafði ekki meiri þekkingu á nátturunni en svo að þeir töldu fuglana bara fljúga í burtu ... með eggin!

En ungunum var allavega bjargað og allir sæmilega sáttir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna er alvöru húsmóðir í vesturbænum og því til staðfestingar kaupir hún reglulega Martha Stewart Living

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband