Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Til fyrirmyndar

Gott að heyra þetta frá bjargveiðimönnum í Eyjum. Ætisskortur virðist vera vandi víðar og vona ég að veiðimenn og þó sérstaklega blóðsportsveiðimenn  sem sækja í Breiðafjarðareyjar taki sér þetta til fyrirmyndar.
mbl.is Bjargveiðimenn í Eyjum ætla að draga mjög úr lundaveiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æi nei!

Mikið skelfilega eiga sumir í miklum erfiðleikum með sjálfa sig! Ég vona svo sannarlega að hægt sé að leiðbeina gerendunum í þessu máli, þeir hljóti viðeigandi refsingu og átti sig gjörðum sínum.

Mikið er ég líka fegin að það var ekki ég sem aldi þessa drengi upp!


mbl.is Meint hundsdráp kært til lögreglunnar á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manneklan er mýta!

Ég held ég sé búin að leysa mannekluvandann á Landpítala-Háskólasjúkrahúsi. Eða þannig. Allavega er ég með nýjan vinkil á málið.

Þessi tími árs er reyndar þannig að umræðan um manneklu á heilbrigðisstofnunum er hávær. Eðlilega. Miðað við hvað heyrst hefur og reyndar líka það sem rannsakað hefur verið snýst vandinn ekki endilega um laun heilbrigðisstétta. Vinnuálagið er númer eitt, vinnuaðstæður númer tvö (þetta tvennt helst reyndar fast í hendur í hjúkrun) og launin koma svo þar á eftir eða janfvel síðar á listanum.

Lausnin fyrir LSH er því ekki að hækka laun hjúkrunarfræðinga heldur fjölga þeim. Reyndar væri sterkur leikur að hækka launin líka, svona til að halda þeim sem enn eru í starfi og lokka til baka nýja.

Mín tillaga er því þessi: fjölgum stöðugildum hjúkrunarfræðinga um 100 og hækkum laun þeirra allra um 10%.

Ég sé fyrir mér að einhver hafi fengið nett flog við þetta og spurji "hvar á að fást peningur í þetta"!!!!! Sá hinn sami getur róað sig, ég held þetta kosti nú ekki svo mikið. 100 milljónir eða svo.

"getur ekki verið" æpir hann.

 Jú víst.

Samkvæmt Félagi Íslenskra Hjúkrunarfræðinga eru meðallaun hjúkrunarfræðinga ríflega 450 þúsund á mánuði. Þá erum við að tala um heildarlaun allra, vaktaálag, yfirvinnu og svo framvegis. Þar sem hlutfall yfirmanna er minna á LSH drögum við 10% frá. Þá er launakostnaður LSH (með launatengdum gjöldum) ríflega 6,5 milljarðar. Bætum 100 stöðugildum við og það er kostnaður upp á ríflega 500 milljarða á ári. Hækkum síðan laun allra um 10% og þá er heildarlaunakostnaður LSH vegna hjúkrunarfræðinga rétt ríflega 7,6 milljarðar.

"semsé, þetta kostar ekki hundrað milljónir heldur þúsund milljónir og gott betur!"

Neinei.

Mannekluvandinn á LSH hefur verið leystur með yfirvinnu starfsmanna. Það kostar miiikið. Segjum að hver hjúkrunarfræðingur á LSH taki 2 aukavaktir í mánuði. Hvað kostar það? ... jú ...

1.000.000.000 kr!

Niðurstaðan er því sú að þessi aðgerð myndi kosta hundrað milljón kall. Jebbs.

"ókei, hvar ætlar þú að finna þessa hjúkrunarfræðinga"

Ja, það eru um 600 hjúkrunarfræðingar í landinu sem ekki starfa við hjúkrun. Margir þeirra eru þar að auki fyrrum starfsmenn LSH sem flúið hafa álag og aðstæður (og laun).

Nú fjölgum við því stöðugildunum, álagið minnkar, aðstæður lagast og launin hækka.

Fyrir litlar 100 milljónir.

Ég hugsa að ég hringi í Árna Matt og Önnu Stef á morgun.


Ungabrenna í Flatey!

Þeir sem Flatey á Breiðafirði þekkja og sækja heim vita að þar stendur tíminn kyrr, róin og dýrðin er alger. Það varð svolítil tímabundin breyting þar á um síðustu helgi. Ég er sannfærð um að meiri hasar hefur ekki verið þar síðan rottan kom í eynna snemma á síðustu öld.

Þannig háttar til að talsverðar framkvæmdir eru víða um eynna þar sem fólk dyttir og endurnýjar hús sín. Því sem brennanlegt er er svo safnað á haug. Nú er kominn nokkuð myndarleg brenna og um síðustu helgi hugðist fólk á ættarmóti, sem ættir sínar rekur í Ásgarð, kveikja í brennunni í tilefni Jónsmessunnar. Eitthvað hafði málið ekki verið hugsað til enda, því nú stendur varpið hvað hæst og margir fuglar komnir með unga. Fuglarnir eru afar hrifnir af svona brennum - þó ekki til íkveikju heldur til hreiðurgerðar. Þrátt fyrir þetta hugðust menn halda brennu þarna á björtu Jónsmessukvöldi.

Nú voru góð ráð dýr. Annað hvort var að horfa upp á ungabrennuna eða grípa í taumana. Valkyrjur í Læknishúsi höfðu forgöngu um alvöru mótmæli. Þrammað var niður að brennunni og þar sem ekki var tauti við brennustjórann komandi var ekki annað að gera en að hlamma sér á brennuna! Brennustjórinn lét nú ekki svoleiðis smámuni aftra undirbúningnum og hóf að skvetta bensíni á brennuna. Þá fór ættarmótsfólk að streyma að og auðvitað urðu vonbrigðin nokkur við þessa fyrirstöðu. Flestir tóku þó sönsum strax og vildu ekki kveikja í ungunum, sérstaklega þegar þeir höfðu virt fyrir sér maríuerluhreiður með sjö nýklöktum ungum.  Brennunni var því aflýst og ættarmótsgestir tóku bara lagið í góðu stuði, þrátt fyrir brennuleysi.

Þetta var reyndar allt hið skrítnasta mál. Verst þótti mér að heyra áeggjan eins föðurs sem þarna var með ungum syni sínum - svona 5-6 ára gutta - sem vildi setja nokkra spýtuklumpa á brennuna. Faðirinn stakk upp á því að drengurinn henti klumpunum í mótmælendur! Annað sem mig undraði var að fullorðið fólk hafði ekki meiri þekkingu á nátturunni en svo að þeir töldu fuglana bara fljúga í burtu ... með eggin!

En ungunum var allavega bjargað og allir sæmilega sáttir


"Konur í okkar fjölskyldu eru ekkert fyrir húsverk"

... sagði hún nafna mín og amma heitin fyrir nokkrum árum. Mikið sver ég mig nú í ættina! Amma var reyndar þeirrar gerðar að þó hún væri nú kannski ekki að fíla húsverk í botn þá var hún alltaf að. Sérstaklega að láta fólk borða. Hún vissi alveg þetta með 6 máltíðir á dag. Það var morgunmatur, morgunkaffi,hádegismatur, kaffitími, kvöldmatur og svo kvöldkaffi. Ég er reyndar ekki viss um að Goran vinur minn Micic væri sammála samsetningu matseðilsins en allir voru nú ánægðir með hann.

En aftur að húsverkum. Ég er eins og amma með það að vera frekar lítið fyrir húsverk en hef hins vegar líka samviskusemina hennar og er bara eiginlega ekki með sjálfri með nema það sé sæmilega hreint í kringum mig. En af því að ég hef frekar lítinn tíma eins og svo margir í dag, þá hef ég fundið ýmsar leiðir til að létta mér verkin. Besta vinkona mín þegar kemur að bakstri er t.d. hún Betty (Crocker) og þegar kemur að þrifum er það hún Bára sem er svo elskuleg að koma hingað reglulega og hjálpa okkur við þrif og þvotta. 

Hér ilmar allt af bakstri. Við mæðgur gerðum nenfnnlega mikilvæga uppgötvun í dag. Það er hægt að kaupa "næstumþvítilbúna" snúða. Deigið er tilbúið, maður þarf bara að rúlla því út og strá svo yfir meðfylgjandi sykurleðju, rúlla upp og skera í bita. Inn í ofn í 10 mín og dásemdin klár! Þetta eru 2næstumþvíalvöru" svenska bullar! Við bárum þetta svo út á svalirnar sem við mæðgur standsettum í gær og Filippía kallar "Ikea veitingahúsið okkar" enda er allt saman þar úr Ikea. Nema hvað.


Ég skal nú segja ykkur það!

Ef ég skrifa eitthvað hérna, er ég þá orðin formlega AAS (athyglissjúkur almenningur með skoðanir)? Eða var ég það kannski alltaf. Eiginlega já. Hér get ég skrifað til sjálfrar mín. Glímt við orðnotkun og samsetningar eins og maður gerði hér áður í "den". Síðustu ár hef ég einungis skrifað á engilsaxnesku og sennilega kominn tími til að hrista takkaborðið á íslensku. Með öllum sínum fallegu ´ö þ ð -um.


Höfundur

Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna er alvöru húsmóðir í vesturbænum og því til staðfestingar kaupir hún reglulega Martha Stewart Living

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband