Tilgangur: Skemmtun/afslöppun
Ferðafélagar: Maki
Árstíð: Vetur
Almennt:Flestir þekkja hótel Búðir. Sjálf man ég eftir gamla hótelinu með þunnu veggjunum, góða matnum og skrautlegu mannlífi. Nýja hótelið er nokkuð lagt frá því gamla, nema hvað maturinn er enn afbragð.
Herbergi: Herbergið sem við gistum á var á þriðju hæð, nr. 28, s.k. deluxe. Það var stórt og innréttað eins og annað á hótelinu; húsgögnin skemmtileg blanda af vönduðum annars vegar og vel völdum frá RL-vöruhús hins vegar. Við erum ekki að tala um neinn lúxus, en verulega huggulega aðstöðu. Rúmið af afbragð og sængurföt sömuleiðis. Baðherbergið var stórt en nýttist fremur illa, vantaði t.d. hillu við vask. Eins er opið að hluta á milli svefnherbergis og baðherbergisins. Það gæti verið svolítið rómó ef við værum að tala um baðið eingöngu, en ef einhver þarf að bregða sér afsíðis um miðja nótt fer það ekki fram hjá herbergisfélaga, enda lýsist allt herbergið upp þó einungis sé kveikt á baðherberginu og óhjákvæmilega fylgja slíkum ferðum einhver hljóð. Þrif á herberginu voru algerlega óaðfinnanleg.
Sameiginleg aðstaða: á hótelinu er mjög fallegur veitingasalur á fyrstu hæð þar sem borinn er fram morgunmatur, hádegisverður og kvöldverður. Eini gallinn við veitingasalinn er að útsýnið, sem gæti verið fallegt til jökulsins er byrgt af bílastæðinu. Frekar óheppilegt. Maturinn er hreinasta afbragð, eiginlega snilld! Morgunmatur er sömuleiðis góður og úrvalið gott. Sumir kunna að sakna hrærðra eggja eða annars sem er heitt, en svo er ekki um mig.
Úrval bóka og blaða (allir árgangar af National Geographic held ég bara) er bæði í sameiginlegum rýmum og á herbergjum. Mjög skemmtilegt.
Bar/setustofa/arinstofa; Þegar inn á hótelið er komið kemur maður inn í arinstofuna sem er mjög hlýleg með fallegum og skemmtilegum myndum upp um alla veggi. Setustofa á annari hæð er skemmtileg, góðir sófar og skemmtilegt lesefni við höndina. Barinn og setustofan á fyrstu hæð eru mjög falleg og útsýnið úr setustofunni er einstakt. Hvað barinn varðar verð ég að taka fram að betri mojito hef ég ekki bragðað og á þjónninn Ási heiður af þeim.
Þjónusta: Þjónustan, hvort sem var í sal, á bar eða í móttökunni var mjög góð. Eitthvað hafði ég heyrt að þjónustan væri vissulega góð, en kannski full afslöppuð. Svo var a.m.k. ekki þegar við vorum þar. Brugðist var við öllu um leið og minnsta smáatriði eða beiðni var nefnd, af hlýju en jafnframt fagmennsku.
Heildarniðurstaða: * * * * af 6 mögulegum. Frábært, Búðir!
Flokkur: Hótelrýni | 22.2.2008 | 22:19 (breytt 23.2.2008 kl. 08:45) | Facebook