Leita í fréttum mbl.is

Stokkhólmur - Grand Hotel

Tilgangur: skemmtun/frí/vinna

Ferðafélagar:fjölskylda/maki

Árstíð: allar

 

Almennt: Grand Hotel er sennilega uppáhaldshótelið mitt. Svona so-far allavega. Hér hef ég gist mörgum sinnum og af ýmsum tilefnum. Hótelið er gamalt (opnaði 1874)  er vissulega "grand". Hér má anda að sér andblæ sænskrar aristókrasíu. Þarna gista yfirleitt frægustu stjörnunar sem heimsækja Stokkhólm og skemmtilegt er að vera á staðnum í byrjun desember, en allir hestu nóbelsverðlaunahafarnir gista á hótelinu. Maður getur þóst vera svakalega gáfaður og sett upp spekingssvipinn.

Herbergi: Ég hef gist á ýmsum herbergjum Grand Hotel og má segja að þau flest séu fullkominn. Þó mæli ég með því að fólk panti sér herbergi í uppgerða hlutanum, t.d. 5 hæðinni í gömlu byggingunni eða í nýopnaða hlutanum. Herbergin eru af góðri stærð, hvort sem um standard, superior eða svítur er að ræða. Húsgögnin eru öll af miklum gæðum og baðherbergin  mjög góð - sér í lagi þau nýju. Rúmin eru frábær. Úsýnið úr herbergjum sem snúa að sjónum er stórkostlegt - yfir að Gamla Stan og höllinni, yfir iðandi bryggjuna þaðan sem bátar í siglingum um skerjaförðinn leggja upp. Ef maður er með börn með sér er hægt að fá samtengd herbergi (conecting) sem er þægilegt, en það er ekkert mál að vera með eitt barn í superior herbergjum.

Sameiginleg aðstaða: Hótelið er mjög stórt og glæsilegt. Víða eru setustofur og tveir veitingastaðir auk skemmtilegs bars. Hvað veitingastaðina varðar þá er það Verandan, mjög huggulegur veitingastaður þar sem besti morgunmatur í heimi er fram borin. Alger dásemd. Nýlega opnaði svo Mathias Dahlgren veitingastað á Grand, þar sem áður var hinn víðfrægi Franska Matsalen. Ég hef ekki prófað hann áður, en borðaði á Bon Lloc sem Dahlgren rak áður og matreiðslan þar var sú fullkomnasta sem ég hef komist í tæri við. Það er gaman að eiga þetta eftir! Cadier barinn er svo skemmtilegur bar þar sem boðið er upp á létta rétti, úrval vínveitinga (döh!) og píanóleik á kvöldin. Útsýnið af öllum þessum stöðum er yfir að Gamla stan sem skemmir nú ekki fyrir.

Þjónusta: Þjónustan hefur yfirleitt verið ágæt á Grand Hotel. Því miður hefur þó komið fyrir að maður hefur fundið fyrir að ekki er nógu vel mannað yfir háannatíma, t.d. í veitingasal a morgnanna. Eins hefði maður stundum búist við herbergisþernunum fyrr á daginn. Hvað varðar herbergisþjónustu er hún sú albesta sem völ er á!

Heildarniðurstaða: Grand Hotel er einmitt það, grand hótel. Alltaf gaman að koma þar og tilhlökkunarefni. ***** af 6 mögulegum.


Höfundur

Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna er alvöru húsmóðir í vesturbænum og því til staðfestingar kaupir hún reglulega Martha Stewart Living

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband