28.1.2008 | 10:32
Þessu slotar bráðum
Það er svolítið magnað að horfa á Styrmi og co hamast í Degi eins og þeir hafa gert að undanförnu. Það mátti til dæmis skilja á blaðinu að Dagur hefði stjórnað mótmælendum á pöllum ráðhússins, þegar honum varð nóg um lætin og gerði hvað hann gat til að hafa vinnufrið. Þetta kallar maður að hafa endaskipti á hlutunum. Það er auðvitað þeim sem þekkja til Dags - og vita því að þar fer maður sem má ekki vamm sitt vita - undrunarefni að blaðið skuli yfirleitt reyna þetta.
Ekki svo að skilja að það breyti lengur nokkru hvað Morgunblaðið prentar, blaðið er að missa allan pondus.
Það er samt óþolandi að menn eins og Dagur þurfi að sitja undir þessu. Ýkjur, aðdróttanir og reyndar bara hreinar og klárar rætnar lygar blaðsins eru því ekki til sóma. Vísa ég þá til þess sem sagt hefur verið í leiðara blaðsins um að forystu menn Samfylkingarinnar hafi nýtt sér meint veikindi Ólafs í þessari orrahríð. Því fer fjarri. Enginn hefur gert það með jafn óforskömmuðum hætti og einmitt Morgunblaðið sjálft. Ég vona bara að þessi stjórnarskipti í ráðhúsinu hafi ekki kostað Ólaf vinslit við fulltrúa núverandi minnihluta, því með þetta Morgunblað að vini þarf enginn óvini.
Ég hef lengi haft það fyrir reglu að lesa ekki Morgunblaðið 6 mánuðum fyrir kosningar. Blaðið verður eitthvað svo öfugsnúið og undarlegt í aðdraganda kosninga að það er ekki lesandi nema maður sé innvígður og innmúraður. Síðustu misseri sýnist mér þó þessi einkenni hafa ágerst og eiginlega orðin krónísk. Maður fær nettan kjánahroll að lesa leiðarann, Staksteina og greinar einstakra blaðamanna. Stundum er maður beinlínis agndofa yfir því sem manni er boðið upp á og á það sérstaklega við um undanfarna daga.
Blaðið á sér þó þá viðreisnarvon að skipt verði fljótlega um ritstjóra. Þess vegna hef ég ekki sagt upp áskriftinni.
Fyrir umræðuna í landinu skiptir þó mestu máli að horfa framhjá fýlubombunum úr Hádegismóum og beina áherslunum að aðalatriðinu sem er þetta óforskammaða valdarán Vilhjálms og félaga.
--
Má til með að skella inn tengil á þessa snilldargreiningu á ástandinu í Hádegismóum;
http://finnurvilhjalmsson.blogspot.com/2008/01/styrmir-br-til-strmann.html
Segir Morgunblaðið hafa gert Ólaf að vígvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er sammála með þessar óþolandi ásakanir í garð Dags. Ég hef verið þolinmóður í garð Moggans hingað til, en ég get ekki varið það að ég greiði með áskrift minni upp í laun mannsins sem skrifar svona eins og vitfirringur sem er desperat eftir völdum.
Ég sagði áskriftinni upp í morgun og sagði í uppsagnarbréfinu að ég vonaðist til að sjá mér fært að taka upp áskrift á ný þegar þessum fáranleika lýkur.
Ásþór Sævar Ásþórsson, 28.1.2008 kl. 14:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.