23.11.2007 | 21:30
Félagi fallinn
Einn besti vinur minn og félagi til ríflega 12 ára er farinn yfir móðuna miklu. Þjálfi Beck hefur fylgt fjölskyldunni frá því 1995 í gegnum súrt og sætt.
Þjálfi lifði hratt og hann lifði vel. Hefði hann mennskur hefði hann sennilega verið flokkaður sem götustrákur upp á gamla móðinn en greindur ofvirkur með athyglisbrest í nýmóðins stíl. Hann var mikill karakter og reyndar talsvert silgdur. Flutti til Svíþjóðar og bjó þar í nokkur ár. Það tók hann nokkra daga að átta sig á að ekki yrðu öll trén í skógum Svíþjóðar merkt með viðgeigandi hætti, svo hann gafst upp á þvi. Eins var hann tiltölulega fljótur að átta sig á því að rádýr eru svakalega spretthörð en það var gaman að láta þau hlaupa af stað og láta þau svo hafa það óþvegið með gelti. Einarðar rannsóknir hans á sænskum köttum leiddu að þeirri niðurstöðu að það var jafn gaman að hrella þá og þá íslensku. Broddgeltir voru aftur á móti ekki eins árennilegir, þó margar atlögur hafi verið gerðar með hetjulegum tilburðum.
Á Íslandi fór Þjálfi víða um byggðir og óbyggðir lands og tók vandlega út búsmala landsins óumbeðin. Hann stóð fyrir fækkun villikatta í vesturbænum, rak þá á brott með glæsisveiflu. Á Gróttu sá hann til þess að rottur, kettir og minkar áttu sér illa viðreisnar von.
Á langri ævi Þjálfa féll ekki úr sá dagur sem hann fékk ekki að minnsta kosti tvo góða gönutúra og hélt því eigendum sínum í góðu formi. Suma stutta, en sennilega fleiri mjög langa. Jafnvel margra daga langa. Þegar duglega gaf á í lífsins ólgusjó var fátt betra en að reima á sig gönguskóna, kalla á Þjálfa og halda í góðann göngutúr. Sama gilti þegar maður þurfti að taka erfiðar ákvarðanir, þá var gott að eiga góðan félaga sem alltaf var til í að eiga með manni tíma og setjast með manni einhverstaðar í laut og fá klór. Þegar heim var komið þakkaði hann alltaf pent fyrir sig með góðu knúsi.
Þjálfi var pjakkur og óttalegur gosi. En hann var elskaður, blíður fjölskylduhundur sem sárt verður saknað mjög lengi.
Það má kannski segja að hann dó eins og hann lifði. Hann féll í hetjulegum bardaga á Geirsnefi síðdegis í dag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.